Reykjavíkurmaraþon 2018

Nú styttist í Reykjavíkurmaraþonið en eins og síðustu ár er hægt að safna fyrir Dropann. Við hvetjum alla til að heita á einhvern af þeim góðhjörtuðu hlaupurum sem hlaupa til styrktar Dropans. Hér má sjá hlauparana:https://www.hlaupastyrkur.is/godgerdafelog/charity/454/dropinn-styrktarfelag-barna-med-sykursyki

Valgeir Ólason lætir sykursýki ekki stöðva sig í neinu!

Valgeir Ólason er einn þeirra sem hleypur fyrir Dropann og hann sendi okkur smá pistil sem við viljum birta með þessari færslu:

“Í lok árs 1984 veiktist ég hastarlega.  Yfir jól og áramót hrakaði heilsu minni verulega. Þarna var ég nýlega orðinn 13 ára gamall.

Aðfaranótt 9. janúar 1985 er ég orðinn meðvitundarlaus. Erfiðlega hafði gengið að fá lækni til að taka við mér og leggja mig inn á spítala, það er önnur saga.

Þegar loks tókst að koma mér á heilsugæslustöð Keflavíkur og ég mældist með blóðsykur 54 fór allt í gang og ég fluttur í skyndi með sjúkrabifreið á Landspítalann í Reykjavík.

Þar tók á móti mér Ástráður B. Hreiðarsson læknir sem í raun bjargaði lífi mínu. Þar lá ég á gjörgæslu og var lengi á spítala.

Þegar ég svo útskrifast og fæ að fara heim, tók við langt ferli þar sem ég var mjög horaður og orkulítill.

Það sem er sterkt í minningu minni er að á þessum tíma þegar ég óharðnaður unglingurinn fer heim staðráðinn í að ná mér og vera virkur í öllu sem ég hafði verið að fást við fram að þessu, þá fékk ég þau skilaboð allt í kringum mig að ég gæti ekki gert hitt og þetta, og að líf mitt yrði héðan í frá mjög breytt.

Tímarnir eru aðrir í dag heldur en 1985 svo mikið er víst. Ég ákvað strax að einblína ekki á hvað ég gæti ekki gert, heldur hvað ég gæti.

Ég fór beint af spítalanum á körfuboltaæfingu og lét aðvaranir læknis sem vind um eyru þjóta.

Ég hef svo stundað íþróttir alla tíð, og það hefur hjálpað mér og stuðlað að því að ég hef alltaf verið án allra fylgikvilla sykursýki.

Ég hef starfað sem slökkviliðsmaður og í fleirri krefjandi störfum, og alltaf gefið mér tíma til að sinna heilsunni.

Nú hef ég skráð mig í 10km hlaup í Reykjavíkumaraþoni Íslandsbanka og ætla að hlaupa til styrktar Dropanum styrktarfélag barna með sykursýki.

Það sem er helsta markmið mitt með því er eftirfarandi:

Að sýna börnum og unglingum sem hafa nýlega greinst að hægt er að lifa góðu lífi og vera mjög virkur í starfi og leik (íþróttum).

Sjálfur hefði ég viljað hafa fyrirmynd á sínum tíma og sjá að þrátt fyrir að hafa insúlínháða sykursýki í 33 ár, þá er maður tilbúinn í stunda hvaða íþrótt sem er og sykursýkin hindrar mann ekki neitt.

Svo framarlega sem maður tekur sjálfur ábyrgð á sinni heilsu, þá eru manni allir vegir færir.

Mig langar mikið að saga mín komist til krakka sem eru hugsanlega að hafa áhyggjur af framtíðinni eftir að hafa veikst af þessum sjúkdómi sem vissulega þarf að taka alvarlega og huga vel að ef fólk ætlar að halda heilsu og orku til langs tíma.