Félagið

Dropinn styrktarfélag barna með sykursýki

Dropinn, styrktarfélag barna með sykursýki hefur starfað síðan 1995. Höfuðmarkmið félagsins er að stuðla að velferð barna og unglinga með sykursýki. Félagar geta þeir orðið sem eiga eða hafa börn og unglinga með sykursýki á framfæri sínu. Einnig er öllum velunnurum barna og unglinga með sykursýki og öðrum þeim sem vilja styrkja og starfa með félaginu velkomið að gerast félagar. Það að skrá sig í Dropann, styrktarfélag barna með sykursýki, bindur félagsmenn á engan hátt, þátttaka í verkefnum félagsins er undir hverjum og einum komið.
Allt starf félagsmanna í þágu Dropans er unnið í sjálfboðaliðavinnu.

Eitt höfuðmarkmiða Dropans er að standa að sumarbúðum fyrir börn og unglinga með sykursýki. Einnig er staðið að ýmsum uppákomum s.s. fræðslukvöldum, fjölskyldukvöldum, keilu, heimsóknum í húsdýragarðinn, tivolí, svo eitthvað sé nefnt. Félagið styrkir unglinga til líkamsræktar.

Fréttabréf er gefið út og sent til félagsmanna ásamt því að birtast á heimasíðu félagsins.

Með því að ganga í félagið gengur viðkomandi einnig í Diabetes Ísland – Félag fólks með sykursýki. Þau samtök gefa út fræðsluefni og standa að ýmsum verkefnum sem varða alla sykursjúka á landinu.

Diabettes Ísland – Félag fólks með sykursýki sjá um að rukka árgjald félagsmanna Dropans og rennur 1/3 af því til Dropans.

Dropinn, styrktarfélag barna með sykursýki starfar í þágu allra barna sem greinst hafa með sykursýki, hvar sem þau búa á landinu. Við erum jafn öflug og áhugi félagsmanna er hverju sinni.

Þegar barn greinist með sjúkdóm hvort sem það er sykursýki eða einhver annar sjúkdómur verður fjölskyldan fyrir áfalli. Mjög oft veit fjölskyldan lítið sem ekkert um sjúkdóminn og þarf að ná ansi mörgu á stuttum tíma á sjúkrahúsinu. Þannig var það hjá okkur þegar dóttir okkar greindist með sykursýki fyir fjórum árum síðan. Á Barnaspítala hringsins fengum við upplýsingar um Dropann og skráði ég okkur í félagið í framhaldi af því. Það hefur verið ómetanlegt fyrir okkur.
Dropinn heldur reglulega ýmsar uppákomur bæði með börnunum og einnig eingöngu fyrir foreldrana. Þá er blandað saman skemmtun og fræðslu. Fjölskyldan fór að mæta á slíkt og þá sáum við að við stóðum ekki ein í þessu og börn með sykursýki vorum miklu fleiri en við héldum. Á þessum stundum hittum við aðra foreldra sem líka eru með barn með sykursýki og lærum af þeim. Dóttir okkar hittir önnur börn sem eru að gera það sama og hún t.d. mæla blóðsykurinn og sprauta sig með insúlíni mörgum sinnum á dag.
Ef það eru einhverjir foreldrar sem lesa þetta og eiga börn eða unglinga með sykursýki sem ekki eru skráð í Dropann, hvet ég þau hér með til að skrá sig í félagið. Það er ómetanlegt að börnin okkar kynnist og við foreldrarnir hittumst annað slagið og fræðumst um sjúkdóminn og nýjustu rannsóknir á honum.
Þórunn Árnadóttir, fyrrverandi stjórnarmeðlimur Dropans.
Hægt er að skrá sig í Dropann, styrktarfélag barna með sykursýki með því að fara á Nýskráning

Einnig má senda umsókn um aðild á netfangið dropinn@dropinn.is