
Stærsta verkefni Dropans er að bjóða upp á árlegar sumarbúðir fyrir börn og unglinga með sykursýki. Dropinn hefur starfrækt sumarbúðir fyrir börn félagsmanna að Löngumýri í Skagafirði. Hverju sinni hafa 22 til 30 börn allstaðar að af landinu dvalist að Löngumýri. Sumarbúðirnar eru ætlaðar börnum á aldrinum 8-13 ára og standa yfir í sex daga.
Unglingabúðirnar hafa verið haldnar fjórum sinnum. Fyrst að Úlfljótsvatni, því næst í Danmörku og svo á Akureyri og nágrenni. Nú síðast voru búðirnar starfræktar um borð í skólaskútu við strendur Svíþjóðar. Tilgangurinn með unglingabúðunum er að vinna með unglingunum og veita þeim undirbúning og fræðslu fyrir lífið, taka á málum sem upp koma á unglingsárunum. Unglingabúðirnar eru fyrir 14 ára og eldri. Þátttakendur hafa verið á aldrinum 14 til 25 ára.
Við undirbúning og framkvæmd sumarbúða barna og unglinga eru eftirfarandi atriði höfð að leiðarljósi.
- Að börn og unglingar með sykursýki fái tækifæri til að hittast og deila sameiginlegri reynslu.
- Að þátttakendur öðlist meira sjálfstæði og öryggi í meðhöndlun síns sjúkdóms.
- Að styrkja sjálfmynd sykursjúkra barna og unglinga.
- Að þátttakendur geri sér grein fyrir mikilvægi þess að lifa heilbrigðu líferni.
- Að gefa sem flestum sykursjúkum börnum og unglingum tækifæri á þátttöku.
- Að allir skemmti sér og líði vel í fræðandi sumarbúðum.

Báðar búðirnar eru uppbyggðar þannig að allir hafi gaman og allir skemmti sér saman ásamt því að fá fræðslu. Það eru læknar og hjúkrunarfræðingar frá göngudeild sykursjúkra á Barnaspítala Hringsins sem vinna að búðunum með okkur og starfa í þeim ásamt öðru frábæru starfsfólki. Út frá báðum búðunum hefur myndast vinskapur á milli krakkanna og hafa þau verið í sambandi sín á milli í gegn um msn, síma og jafvel heimsótt hvort annað þó svo að þau búi í sitt hvoru byggðarlagi.
Allar upplýsingar okkar benda í eina átt, þ.e. að barnabúðirnar og unglingabúðirnar hafi heppnast afar vel. Það að börnin og unglingarnir vilji fara aftur, þýðir að þeim hafi liðið vel. Að foreldrar vilji leyfa börnunum og unglingunum sínum að fara segir okkur að fullt traust sé á milli aðila. Ef okkur líður vel má áætla að við séum móttækileg fyrir þeim góða boðskap sem fræðslan og samveran færir þátttakendum. Áhugi annarra foreldra og sykursjúkra barna og unglinga á búðunum eykst vegna þess hve vel þær hafa tekist.

Það er mikil vinna og kostnaðarsamt að láta búðirnar ganga upp. En með frábæru samstarfi við göngu deildina og þess starfsfólks sem við höfum fengið til okkar, ásamt öllum þeim styrktarfélögum, fyrirtækjum og öðrum aðilum sem hafa styrkt okkur, þá hefur þetta gengið upp. Það er unun að sjá hvernig læknar og hjúkrunarfræðingar taka á móti börnunum okkar og hugsa um þau, eins og væru þau þeirra eigin. Við erum mjög þakklát göngudeildinni, öðru starfsfólki búðanna og allra þeirra sem hafa veitt okkur styrki og aðstoð í gegnum tíðina. Hafi þau öll kærar þakkir fyrir.