Lög Dropans

Lög og reglur Dropans, styrktarfélags barna með sykursýki

1. gr.

Félagið heitir, Dropinn, styrktarfélag barna með sykursýki. Það skal vera í samstöðu og samstarfi við Samtök sykursjúkra. Mun stjórn Dropans tilnefna a.m.k. einn fulltrúa í stjórn Samtaka sykursjúkra.

2. gr.

Tilgangur félagsins er
Að veita öðrum foreldrum stuðning.
Að aðstoða fjölskyldur og einstaklinga við að leita réttar síns.
Að upplýsa um stöðu sykursjúkra og vekja athygli á hagsmunasamtökum þeirra.
Að sjá um félagsstarf fyrir sykursjúk börn og unglinga.

3. gr.

Tilgangi sínum hyggst félagið ná á eftirfarandi hátt.
Að vera stuðningur við foreldra sykursjúkra barna.
Að miðla fræðslu til foreldra, t.d. með því að kynna nýjungar í málefnum sykursjúkra og greina frá stöðu og þróun mála hverju sinni.
Að standa vörð um réttindi foreldra sykursjúkrabarna, hvað varðar umönnunar­bætur o.fl.
Að annast fræðslu og upplýsingamiðlun til félagsmanna, almennings og skóla um sykursýki.
Að sjá um félagsstarf fyrir sykursjúk börn og unglinga (dagsferðir/helgarferðir að sumri/vetri, útilegur, skíðaferðir, sund, keilu, kvikmyndahús o.fl.).

4. gr.

Félagar geta þeir orðið sem eiga eða hafa börn/unglinga með sykursýki á framfæri sínu, velunnarar þeirra og aðrir sem styðja markmið félagsins. Einnig er öllum sem vilja styrkja og starfa með félaginu velkomið að gerast félagar.

5. gr.

Stjórn félagsins skipa sjö félagsmenn, fimm í aðalstjórn og tveir í varamenn. Skal kjörtímabil þeirra vera tvö ár. Skulu þeir kosnir skriflega á aðalfundi, fyrst formaður, síðan stjórnarmenn. Stjórnin skiptir með sér verkum. Hún getur falið einstökum félagsmönnum að vinna verk í þágu félagsins og skipað nefndir í sama tilgangi.

6. gr.

Aðalfundur félagsins skal haldinn í byrjun árs  ár hvert.

Dagskrá aðalfundar skal vera sem hér segir: Skýrsla formanns um starfsemi félagsins á liðnu ári. Lagabreytingar Kosin stjórn samkvæmt 5. grein laganna. Önnur mál.

Aðalfundur félagsins er því aðeins lögmætur að hann sé löglega boðaður með viku fyrirvara. Dagskrár aðalfundar skal nánar getið í fundarboði. Tillögur um lagabreyt­ingar, sem óskað er að verði lagðar fyrir aðalfund til ákvörðunar, skulu hafa borist stjórn þremur vikum fyrir aðalfund. 2/3 hluta greiddra atkvæða þarf til breytinga.

7. gr.

Félagar eru sjálfkrafa félagar í Diabetes Ísland í Reykjavík eða á Akureyri og innheimtast félagsgjöld þar. Félagið getur einnig gerst aðili að öðrum samtökum inn­lendum og erlendum sem vinna að hagsmunamálum sykursjúkra barna og unglinga samkvæmt samþykkt félagsfundar.

Samþykkt á aðalfundi Foreldrafélags sykursjúkra barna og unglinga 23. október 1996,  með breytingum þann 21. október 2004 ,þann 20. okt. 2005 og þann 30. okt. 2011